Monday, March 24, 2014

Er þunglyndi bara í hausnum á mér ?

Áðan las ég þessa grein sem gerði mig bara alveg rosalega reiða:

http://innblastur.is/read/2014/03/20/laekningin-vid-thunglyndi/?fb_action_ids=10203342171818122&fb_action_types=og.likes&fb_source=other_multiline&action_object_map=%5B492590677530498%5D&action_type_map=%5B%22og.likes%22%5D&action_ref_map=%5B%5DÍ þessari grein segir; 

"Þunglyndi er að mínu mati ótrúlega misskilið fyrirbæri. Af mörgum er þunglyndi talið vera sjúkdómur. Það er ekki rétt. Að minnsta kosti ekki í þeirri merkingu að þunglyndi sé eitthvað sem við fáum og ráðum ekki við, óheppin við. Þunglyndi er einvörðungu huglægt og kemur til af því að viðkomandi einstaklingi líki ekkert sérstaklega vel við sjálfan sig."

Ég hef lengi velt fyrir mér hvort ég eigi að opna mig um mína sjúkdóma, og eftir að hafa lesið þessa grein þá langar mig eiginlega bara að svara þessu.

Ég er þunglynd og með kvíðaröskun. 


Síðan áður en ég man eftir mér hef ég barist við þunglyndi. Vissulega hef ég lent í ýmsum erfiðleikum í lífinu, ég var lögð í einelti, já ég er hætt að láta eins og það hafi ekki gerst.. Ég var lögð í mikið einelti í grunnskóla og ég átti enga vini. Ég grét í fanginu á mömmu minni nánast alla daga og var vitanlega alveg rosalega þunglynd. En það var löngu komið upp á yfirborðið áður en ég lenti í neinu, áður en slæmar lífsreynslur höfðu mótað lífið mitt. Ég man ekki einu sinni hvenær ég byrjaði að taka þunglyndislyf. Ég hef örsjaldan náð að vera án þeirra og það hefur alltaf varið stutt. Þegar ég var ung var ég rosalega geðill, skapvond og erfitt að umgangast mig. Foreldrar mínir fóru með mig stanslaust til læknis, leitandi að svörum, og þá var ég svona rosalega þunglynd sem barn. Ég var ekki nema 12 ára gömul þegar ég var farin að íhuga að taka eigið líf.. Ég hefði sjálfsagt aldrei þorað að framkvæma það, en ég hugsaði mikið um það, hvort einhverjum (fyrir utan nánustu fjölskyldu) yrði sama hvort ég myndi bara drepa mig. Að vísu fékk ég þessar hugsanir staðfestar frá einum aðila í sms-i, sem sagði að heimurinn væri mikið betri án mín og að ég ætti bara að drepa mig.  


Þetta er ekki það sem mótaði þunglyndið mitt. Hver einasti dagur er barátta, og hefur alltaf verið í mínu lífi, alveg sama hvað er að gerast. Til dæmis er ég í dag nýgift og lífið ætti að vera dans á rósum en það er það ekki. Sumir dagar eru bara alveg rosalega erfiðir. Suma daga get ég ekki haldið inni tárunum, og græt úr mér augun, ekki útaf því ég hata sjálfa mig svo mikið, ekki út af því að lífið er svo erfitt, heldur er engin ástæða fyrir því. ÞAÐ er þunglyndi, oftar en ekki líður manni hræðilega en maður hefur enga hugmynd af hverju, sem í mínu tilfelli lætur mér líða enn verr því ég verð svo pirruð þegar ég græt út af engu.


Ég reyndi að hætta að taka lyfin mín fyrir stuttu síðan. Ég varð brjáluð í skapinu, réð ekkert við sjálfa mig, allt var ómögulegt, hvort sem það var ég, maðurinn minn eða jafnvel dýrin mín, svo grét ég úr mér augun, bara því ég þoldi ekki að Binni var að sjá mig í þessu ástandi.


,,Þunglyndi er að vera brotin/nn. Lækningin við þunglyndi, og já hún er svo sannarlega til, því um það er ég lifandi vitni, er sú að horfast í augu við sjálfan sig og sjá að þú ert ekki svo hræðilegur eftir allt saman. Það er að fara í gegnum það sem þú hefur upplifað um ævina og uppgötva að skilaboðin sem þú fékkst voru röng, að þú ert fullkomin/nn nákvæmlega eins og þú ert. Þú þarft ekki á neinu að halda til að vera það. Lækningin felst í því að taka eftir röddinni sem segir alla þessa ljótu, leiðinlegu hluti og skipta því sem hún segir út fyrir jákvæða hluti. Að velja að segja við sig: “Ég er fullkomin/nn, ég er frábær eins og ég er, ég elska þig eins og þú ert.” Lækningin er að horfast í augu við þig í speglinum og vita að þú ert nóg."


Ég er búin að hitta sálfræðinga og geðlækna allt mitt líf. Allir hafa gefið mér það verkefni að fara heim og horfa í spegilinn og hrósa sjálfri mér fyrir hitt og þetta. Jújú það gerir alveg gagn en nei það er ekki lækning.


Ég er ekki þunglynd af því að ég hata sjálfa mig. Ég er ekki þunglynd því ég var lögð í einelti. Ég er ekki þunglynd því ég hef lent í slæmum hlutum í lífinu.

Ég er þunglynd því ég fæddist svoleiðis. Ég er þunglynd og ég get ekkert að því gert. Það eina sem ég get gert er að taka lyfin mín og læra að lifa með þessum sjúkdómi. Svo er ótrúlegt hvað góð hreyfing gerir mikið fyrir þunglyndi, setur náttúrulega gleðiefnið í heilanum á okkur af stað og er besta lyfið við þessum leiðinlega sjúkdómi.

Mér finnst þetta stór orð sem þessi ágæta stelpa er að henda fram og ég held hún mætti bara sveimérþá skammast sín fyrir þau. Þetta er mögulega svarið við almennri vanlíðan, en þetta er ekki svarið við þunglyndi. Hver og einn tekst á við þunglyndi á sinn hátt, sumir ná tökum á því aðrir ekki. Ég er því miður ein af þeim sem þarf alltaf að berjast við þetta en ég er búin að sætta mig við það, og þar með er hálf barátta sigruð. Hinn helminginn af baráttunni mun ég alltaf berjast við. 


Það er svo mikilvægt að opna fyrir þessa umræðu, og mikilvægi þess að fá hjálp, ég vona að enginn sem er að upplifa þunglyndi, lesi þessa grein og haldi að þetta sé í hausnum á þeim og fari fyrir vikið ekki að fá hjálp. Þetta er alvöru sjúkdómur og hann er ekkert grín.