Thursday, November 27, 2014

Í kjólinn fyrir jólin?


Megrun, kúr, átak, eða nýr lífsstíll?
Alltaf þegar við höfum "tekið okkur á" hefur það alltaf endað sem nokkurra vikna eða mánaða átak, svo koma jól, eða einhver önnur "góð" afsökun til að missa sig í sukki og rugli og við erum því miður það miklir fíklar, að við náum oftar en ekki að hætta. Þannig að oft endar þetta í sama fari.

 Mér þykir hálfvandræðalegt að vera að setja á facebook í 3-4 skiptið "búin að missa x mörg kíló", og svo nokkrum mánuðum seinna er allt orðið eins.

Það sem mér finnst maður oft brenna sig á er að einblína of fast á einhvern einn ákveðinn dag, eða tíma. "Ég ætla að vera svona dugleg þangað til um jólin" eða" ég ætla að taka mig á um áramótin svo ég verði orðin fín fyrir sumarið". Fyrir mig hefur þetta mögulega (þó ég viti það kannski ekkert fyrir víst) verið það sem skemmir svolítið.. Maður einblínir bara á að borða svona og hinseginn "þangað til" ..

Í þetta skiptið erum við, finnst mér, loksins búin að finna okkur lífsstíl sem virkar. Við erum ekki að hugsa um jólin sem einhverja góða afsökun til að missa okkur aftur, heldur ætlum við bara frekar að gera heimagert, sykurlaust nammi, en svo er líka allt í lagi að fá sér smá smakk, en það þarf þá líka að vera BARA smá! Við erum hætt að missa vitið yfir því ef við stelumst í einn súkkulaðibita, það þýðir bara ekkert að fá stanslaust samviskubit yfir því, heldur bara leyfa sér þetta bara og halda svo áfram á sömu braut. Og það er að virka. Við hugsum ekki lengur endalaust um það að eitthvað sé "bannað" eða neitt, það er ekkert bannað.. ef okkur langar í það þá fáum við okkur bara.. og viti menn, heimurinn endar ekki!

En svo pössum við okkur líka, að þegar við erum að fara eitthvað, í ferðalög og svoleiðis, að vera vel undirbúin, annað hvort með því að taka nesti eða að vita hvert við getum farið til að borða eitthvað sem hentar okkar mataræði.

Þannig að loksins er ég komin með lífsstíl sem ég get hugsað mér að lifa á alltaf. Með það fyrir stafni að líða vel!

Síðasta vigtun var þvílíkt ergjandi, vantaði bara 400 gr til að komast í -10kg og svo missti ég ekki eitt einasta gramm.. samt missti ég nokkra cm af öllum líkamspörtum en það dugði ekki til að gleðja mig, ég varð ógeðslega ómöguleg og þunglynd yfir daginn, bitur yfir því að hafa ekkert misst en samt verið svona dugleg.. sem er ótrúlega heimskulegt, því, eins og ég sagði þá missti ég nokkra cm af öllum stöðum sem við mælum, t.d heila 11,5 cm af maganum! Þannig að ég reif mig auðvitað upp úr þessari vitleysu, og hélt áfram á sömu braut!

Svo vigtuðum við okkur í morgun, degi fyrr en venjulega því við erum að fara til Reykjavíkur í kvöld, og ég missti 1,6 kg í vikunni og er því búin að missa tæp 11 kíló eða 10,8 kg!  Sem ég er auðvitað himinlifandi með!

EN þegar uppi er staðið snýst þetta ekki bara um þyngdartap, heldur að láta sér líða vel, og geta horft yfir vikuna og mánuðinn og sagt ég gerði allt sem ég gat gert og ég er stolt af sjálfri mér! :)

Góða helgi gott fólk! :)

Wednesday, November 19, 2014

"Hvað fáiði ykkur eiginlega á laugardögum?"

"Hvað fáið þið ykkur á nammidögum, um helgar, á laugardögum?"
Ég fæ þessa spurningu rosalega oft. Í fyrsta lagi er alls ekkert heilagt að maður "verði" að fá sér eitthvað. En stundum langar manni að gera vel við sig eftir harða viku og við reynum að gera okkur mjög góðar máltíðir, t.d lambabóg/læri, gerðum steikarsamloku um daginn, mínus hveiti, og fleira. Ef maður er nógu ákveðinn í að halda sig við þennan lífsstíl er þetta ekkert mál, maður þarf bara að vera duglegur að finna uppskriftir og nota hugmyndaflugið.

Við fáum okkur popp flestar helgar. Heimapoppað, lágmarksolía og ekki of mikið salt. Okkur finnst popp rosalega gott þannig að það dugir okkur alveg. Svo splæsum við stundum í sykurlaust súkkulaði sem fæst í Nettó, og líka Hlíðarkaup sem heitir Balance og er svakalega gott, fæst bæði hreint, dökkt og ljóst, með hnetum og berjum og allskonar. Okkur finnst líka allt í lagi að fá okkur smá suðusúkkulaði, gerum það stundum.

Þegar ég nenni tek ég mig líka til og græja einhverja góða eftirrétti.
Seinustu helgi ákvað ég að prufa að gera sjeik. Fann mér uppskrift af sykurlausum ís sem er mjög góður:

Súkkulaðisjeik
Dugar í 2 stór glös

2 egg
1 eggjarauða
250 ml rjómi
40 g sukrin melis
tsk vanilludropar
15 dropar vanillustevía

Rjóminn er þeyttur og settur til hliðar. Í annari skál er þeytt saman; egg, vanilludropa, sukrin melis og stevía. Þetta er fryst og það er gott að hræra í ísnum á meðan hann er að frosna

Þegar ísinn er reddý bræddi ég 1 plötu af suðusúkkulaði og lét kólna, en ekki þannig að það harðnaði

Svo set ég allann ísinn í skál, mjólk og brædda suðursúkkulaðið og blanda saman með töfrasprota. Ath að það þarf að taka ísinn út tímanlega því hann verður svo harður.
Svo skreytti ég með smá súkkulaði ofan á og voila.


 Sjúklega góður sjeik með mjög takmörkuðu sykurmagni. Í einni plötu af suðusúkkulaði eru ca 50 gr af sykri, þannig að ef þessu er skipt í 2 er ca 25 gr af sykri í 1 glasi. Mér finnst það alveg vera innan leyfilegra marka :)

Friday, November 14, 2014

Gulrótin!

Mér finnst mjög mikilvægt að hafa gulrót. Eitthvað til að halda í.
Þegar maður kemst yfir ákveðin þröskuld er gott að verðlauna sig. Í okkar tilfelli er það yfirleitt nýtt tattoo! Við elskum tattoo :) !!
Binni er náttúrulega ofurmaður í þessu öllusaman og er sko svo sannarlega búinn að vinna sér inn eitt tattoo, búin að missa rúm 17 kíló!!
Við förum á morgun á akureyri og hann splæsir sér í eitt tattoo þar. Ég ákvað að verðlauna mig líka, þegar ég kemst yfir 10 kílóa þröskuldinn og fer í tattoo eftir 2 vikur! Er búin að missa rétt tæp 10 kíló, þannig að ég verð væntanlega komin eitthvað yfir það á næstu 2 vikum :)

Er gersamlega að drepast úr tilhlökkun, verð sennilega spenntari fyrir nýju flúri heldur en utanlandsferð! Þótt fjölskyldan deili ekki alveg sama spenningi fyrir þessu ;)

Allavega þá er vigtun dagsins sjúklega flott, búin að missa 9,6 kíló og vantar bara aðeins upp á 10 kílóin. Var að vonast til þess að komast yfir 10 kíló eftir dugnað vikunnar en það er þá bara í næstu vigtun! :)


xoxo

Tuesday, November 11, 2014

Mælingar


Fyrstu mistök sem ég geri þegar ég er að taka mig á, eru sennilega að ætlast til þess að hlutirnir gerist hratt. Ég er minn versti óvinur og enginn er betri en ég sjálf í að rífa mig niður.
Á föstudögum er vigtun. Annan hvern föstudag er mæling. Alla fimmtudaga er ég með hnút í maganum með endalausar spurningar og pælingar í kollinum. Gerði ég nóg? Hefði ég átt að vera lengur í ræktinni? Hefði ég átt að sleppa að borða þetta og hitt?

Síðustu 2 mánuðir, rúmlega hafa gengið fáránlega vel. Við erum bæði ákveðin og njótum þess að líða betur. Svo kom bakslagið síðasta föstudag. Mér fannst ég ekki hafa lést nógu mikið, of lítið farið af maganum og dagurinn var bara ónýtur. Ég hafði mig í ræktina þótt mig langaði bara undir sæng að sofa.
En þegar ég horfi til baka veit ég að ég gerði mitt besta. Það er ekki hægt að ætlast til þess að ég geri meira en það. Ég borða rétt, hreyfi mig akkúrat eins mikið og skrokkurinn þolir og er loksins komin með hið fullkomna jafnvægi þegar kemur að hreyfingu og mataræði.

Aðalatriðið er líka að markmiðið var ekkert bara að léttast. Heldur bara að líða betur!

Svo þegar ég fór yfir tölur föstudagsins voru þær alls ekkert slæmar:

 Læri -6 c
Rass -7,5 cm
Magi 9,5 cm
Brjóst 14 cm!! sem er svolítið skemmtilegt því skálarstærðin er enn sú sama, þannig að þetta er bara ummálið sem hefur minnkað :)

Alls hef ég misst tæp 9 kíló!

Ég ætla bara að hætta að væla yfir því hvað hefði átt að fara og hvaða tölu ég sá á vigtinni, því þetta er ennþá allt mínustölur og ég get ekki annað en verið stolt af því! :)

Tuesday, October 28, 2014

Fun facts

Tók nokkrar skemmtilegar staðreyndir saman um þyngartap. Tek það fram að þetta er allt fundið á internetinu.. þannig að þetta hlýtur að vera satt!*  Ef þú stillir hitastigið í húsinu þínu aðeins kaldara en það sem þér þykir þægilegt, þarf líkaminn að    vinna meira til að halda á sér hita, og brennur fleiri kaloríum í leiðinni. Sama gildir um kaldari            sturtu!

*  Hristiru lappirnar á þér þegar þú situr? Það brennir nokkrum auka kaloríum

*  Það segir sig sjálft að það er alltaf góð brennsla að taka stigann í stað lyftunnar. En ef þú tekur 2         þrep í einu þá brenniru meira við það

*  Ef þú sendir stanslaust sms eða ert stanslaust að hamast á tökkunum á símanum í klukkutíma,             brenniru 132 kaloríum. Góðar fréttir fyrir símaóða ;)

*  Ef þú borðar standandi, brennuru meira á meðan þú borðar

*  Að hlægja stanslaust í 15 mínútur brennur 50 kaloríum

*  Ef þú eyðir 30 mínútum í að endurraða húsgögnum brennuru 266 kaloríum. Góðar fréttir fyrir Binna, sem endurraðar öllu helst á nokkurra vikna fresti ;)

*  Kryddaður matur getur aukið brennslu

*  Því lengri tíma sem þú eyðir í að tyggja hvern munnbita því meira brenniru í leiðinni


VERÐI YKKUR AÐ GÓÐU! :)Sunday, October 26, 2014

Lauflétt og holl pizza

Ég get ekki hætt að tala um hvað ég elska bókina sem pabbi gaf okkur í jólagjöf í fyrra, brauð og eftirréttabók Kristu, glútein, ger og sykurlausar uppskriftir af allskonar gómsæti sem er bara alls ekki verra en hitt.

Er búin að prufa nokkrar brauðuppskriftir en hef ekki fundið ennþá beint brauð sem mér líkar. Hinsvegar, eins og ég hef sagt áður, bakaði ég flatkökur um daginn sem ég bara ELSKA. Er farin að nota það í allt mögulegt.

Mér finnst oft vera mikill galli með svona uppskriftir að maður verður að kaupa fjöldan allann af dýrum innihaldsefnum, husk og sukrin og hvaðeina, og svo þarf maður kannski ekki nema smá af hverju í hverja uppskrift. Þess vegna er þessi uppskrift svo frábær, því það eru örfá innihaldsefni og kostar mann ekki hálfann handlegg að gera, sérstaklega á meðan maður er að prófa sig áfram!Að þessu sinni prufuðum við að gera pizzu úr þessu, með smá mexíkósku ívafi. YÖMMTASTIC!

Pizza:
4 egg
3/4 dl husk trefjar
125 gr rjómaostur
1/2 tsk salt

Ég mauka þetta saman með töfrasprota og svo bætti ég við sólkjarnafræjum og hörfræjum.
ATH að hafa botninn vel þunnan, svo hann sé ekki blautur í miðjunni.

Ofninn er forbakaður við 160°c í 15 mínútur

Það sem við settum á pizzuna var:
Pizzusósa hrærð saman við smá salsa sósu
Kjúklingur steiktur upp úr salti og góðu paprikukryddi
Maísbaunir
Rauðlaukur

Svo var þessu hent í ofninn í 15 mínúturSvakalega einfalt, létt í maga og rosalega gott!Tuesday, October 21, 2014

klikkaður spínatsmoothie

Spínat er svokalluð ofurfæða. Stútfullt af vítamínum, A vítamíni, C vítamíni og B6, ásamt fullt af steinefnum, magnesíum, járni og kalki og prótíni. Það er ekki TIL nógu góð ástæða til að éta ekki spínat. Ég naut þess í botn í sumar að vera komin með garð og geta ræktað nóg af spínati til að endast mér allt sumarið.

Ég var alltaf búin að ákveða að spínat væri algjör viðbjóður en prufaði það ekki einusinni. Um leið og ég gerði mér búst fattaði ég að þetta er algjör snilld. Alltaf hægt að bæta nokkrum blöðum á salatið, í matreiðsluna og auðvitað smoothie!

Ég var að gera þennan áðan og hann er snilld, sló sjálfri mér alveg við með honum!
ca 1/2 - 1 bolli mangó
1/2 banani
nokkur vínber (ég kaupi fersk og á alltaf í frysti)
ca 1 lúka spínat
slatti af trönuberjasafa, erftt að fá sykurlausann, mæli með þessum á myndinni :)

og svo öllu hent saman í blanda eða hakkað með töfrasprota
Ekki láta litinn á þessu blekkja, hann er fáránlega góður, mögulega besti
smoothie sem ég hef smakkað! :)

Bon appetít

xoxo

Saturday, October 18, 2014

Hveitilausir hamborgarar!


Þessa dagana reynum við að borða engann sykur og ekkert hveiti, aldrei. Sykurinn getur orðið helvíti strembinn að losna við. En auðvitað langar manni að leyfa sér eitthvað um helgar, smá sunnudagssteik eða eitthvað.

Að þessu sinni ákváðum við að gera okkur hamborgara.
Vildi henda inn einni uppskrift af góðu "brauði" sem hentar í ALLT, sama hvort það séu hamborgarar, samlokur eða vefju. Über gott!!


Brauð:
Dugar í 4 stykki

125 gr rjómaostur
4 egg
1/2 dl husk trefjar (ég set rúmlega 1/2)
salt

Svo set ég aukalega smá dass af hörfræjum og sólkjarnafræjum!

Öllu er hent saman í skál og hrært saman. Blandan er látin standa í 15 mínútur.

Svo er deiginu smurt á bökunarpappír. Passið að hafa blönduna ekki of þykka, sérstaklega ef það á að nota þetta í vefjur, þá þarf þetta að vera alveg öööörþunnt.

Hent í ofn við 160°c í 20-25 mín

Ég ætla ekkert að ljúga, þetta er ekki alveg eins og að fá sér sveittann börger, EN þetta er alveg nógu nálægt því að mínu mati.. svo bara steiktar kartöflur með og þá er komin fínasta máltíð.

XOXO

Monday, October 13, 2014

Sítrónuvatn


Ég hef lengi velt því fyrir mér hvort það virki að drekka reglulega sítrónuvatn. Ég hef heyrt marga tala um að þetta sé allra meina bót, þannig að ég ákvað að prufa þetta.
Sítrónan er meinholl, stútfull af C-vítamíni og mörgu öðru.. Ég tók saman lista yfir það hvað sítrónuvatn getur hjálpað með:


Meltingakerfið: sítrónuvatn hjálpar þér að koma meltingunni af stað.  Einnig getur glas með sítrónuvatni á morgnana minnkað brjóstsviða og magaþembu.


C-vítamín hjálpar þér að styrkja ónæmiskerfið og verja þig gegn kvefi

Rík af andoxunarefnum sem hjálpa þér að viðhalda fallegri húð

Hjálpar til með vatnslosun og er einstaklega góð fyrir fólk sem fær reglulega bjúg, ásamt því að hjálpa þér að hreinsa út eiturefnin úr líkamanum.

Basískur líkami: sumir vilja meina að með því að gera líkamann basískann, áttu auðveldara með að grennast.

Trefjar sem hjálpa til með að segja okkur að við séum orðin södd.
Hvernig væri að sleppa þessum megrunartöflum sem þenja út magann til þess að fá þessa "seðjunar" tilfinningu, og drekka sítrónuvatn í staðinn?

Sítróna inniheldur þar að auki fullt af vítamínum og steinefnum, eins og magnesíum, járni, kalki, B vítamíni og einna helst, C vítamíni.

Ég veit svosem ekki hvort allt á þessum lista sé dagsatt en það verður hver að sjá fyrir sig. Best er að hita vatn og hella út á sítrónurnar, ég læt það kólna þangað til það er volgt og henda svo í sig, á föstum maga. Ætli þetta sé ekki allra meina bót?


Sunday, October 12, 2014

Smooth-ís?

1. september síðastliðinn var alveg klárt mál, eftir fjögurra ára sveiflur í mataræði og þyngd var alveg klárt mál að við þurftum að byrja alveg upp á nýtt. Maður les stanslaust um þetta og hitt mataræði sem svínvirkar, LKL, 5+2, og svo framvegis, en staðreyndin er sú að ekkert eitt virkar fyrir alla. Það er mjög snúið að finna, hvað virkar fyrir mann, þegar maður er í stanslausu ströggli með þyngdina sína, eins og við hjónin erum í. 

Við byrjum á að taka út allt glútein (hveiti o.s.frv.) og sykur. Eitt og sér er þetta mjög gott fyrir okkur, ekki bara til þess að léttast, því í okkar huga er það ekkert endilega það mikilvægasta, þó það verði að fylgja með. Góð líðan er að sjálfsögðu í forgangi, og þar sem að ég er með vefjagigt og fleiri kvilla, þar sem mataræði spilar mjög stórt hlutverk í minni líðan þá var þetta mjög mikilvægt. Ég hafði oft lesið mig til um að sykur færi alveg svakalega illa í fólk í minni stöðu. Einnig glími ég við þunglyndi þar sem mataræði, hreyfing og svefn spilar stærsta hlutverki í minni líðan. Eftir að ég tók út sykur og hveiti, og að sjálfsögðu áfengi, hef ég náð dramatískum árangri í minni heilsu og líðan.
Þar að auki er ég búin að missa 5,6 kíló og 8,5 cm farnir af mittismálinu :) Smá mont :)


EN nóg um það! 
Á föstudaginn fór ég í "skvísuferð" með mömmu, Vilborgu ( systir mömmu) og Önnu Maríu, dóttir Vilborgar. Það er mjög fljótt að verða að rútínu að halda sér í réttu mataræði, búa til allt sjálfur og svoleiðis, en svona ferðir flækja málin. Þess vegna er svo rosalega mikilvægt að undirbúa sig vel. Hafa með sér nesti, hugsa fyrirfram hvar er hægt að borða án þess að svindla of mikið, þó það sé alveg í lagi að svindla smá, svo lengi sem maður missir sig ekki alveg. 
Ég ákvað á laugardeginum að leyfa mér að fá mér Smooth-ís, sem er semsagt nokkurnvegin smoothie, með ís samanvið. Þetta var vissulega mjög gott, EN Binni hefur verið að fikta við að búa til svona, með skyri og öðru í staðinn fyrir ís, og ég verð að viðurkenna að Binna útgáfa af þessu er MIKLU betri, að mínu mati. Sykur er ekkert nauðsynlegur í svona drykk, þar sem að ávextirnir sjá alveg um sætuna í þessu.

Hann notar:

Frosin Jarðaber
Frosin Mangó
Banana
Frosin bláber
Frosin Vínber (bara örfá)
Trönuberjasafi (SYKURLAUS!! sem er ekkert auðvelt að fá)
Vanillu skyr.is

Allt maukað saman, oft þarf að leyfa ávöxtunum og berjunum að þiðna smá, því ekki allir blandarar/töfrasprotar ráða við alveg gaddfreðna ávexti

Svo er þessu bara hent í skál eða glas og notið vel. Alveg hægt að borða þetta í staðinn fyrir ís, ferst og fáráánlega gott!!
Tek fram að Binni á alveg heiðurinn af þessu! ;)

Ást og kossar

Jóhanna! :)

Monday, April 7, 2014

Oslóstuð


Það er aldeilis í nógu að snúast þessa dagana, á föstudaginn lágum við í pottinum eftir ræktina og töluðum um hvað það væri leiðinlegt að bíða eftir að flytja, og ákváðum bara að tékka hvort það væri ekki laust í eitthvað ódýrt flug daginn eftir, því við áttum 50þúsund króna gjafabréf hjá icelandair. Eina sem var laust og kostaði ekki allt of mikið, var til Osló, þannig að við slógum bara til!
Við fengum þetta glæsilega hótelherbergi sem kom skemmtilega á óvart því við bjuggumst við einhverju ógeði miðað við hvað við borguðum fyrir það.

Við þóttumst nú vita að verðin væru há þarna en okkur brá aldeilis, það var nánast ekkert undir 1000 krónum þarna. Til dæmis ætluðum við að kaupa vatn en 1/2 líter af vatni kostaði í kringum þúsundkallinn og gos kostaði yfirleitt yfir 1000 kr. snakkpoki kostaði líka í kringum 1000 kr.

Þetta var alveg orðið ástand, því við vorum farin að eiga erfitt með að finna eitthvað að borða. Það kostaði meiraðsegja svona 3000 kr á mann að borða á McDonalds.
Við enduðum ferðina á máltíð á flugvellinum á sportbar, ég fékk mér hamborgara og franskar, Binni fékk sér club samloku og franskar, gos og laukhringi, heila 3 á mann og þetta kostaði 10 þúsund!!


Annars var þetta alveg rosalega góð ferð í alla staði og gott frí, sérstaklega því ég fékk að halda á slöngu og ég elska slöngur. Nú eru bara 2 dagar sem við höfum til að klára að pakka og svo flytjum við í fjörðinn fagra á fimmtudaginn og svo förum við til London eftir 25 daga.
Needless to say þá erum við orðin svolítið mikið spennt fyrir þessum nýju tímum! :)
Tuesday, April 1, 2014

Flutningar og "hollt" túnfisksalat

Í fyrsta lagi ætla ég að byrja á að segja takk fyrir mig !! Viðbrögðin sem ég fékk fyrir síðasta blogg um baráttuna mína við þunglyndi voru æðisleg, c.a 400 manns skoðuðu síðuna eftir að ég setti þetta inn og ég hef fengið frábærar kveðjur frá ótrúlegasta fólki.  Takk fyrir stuðninginn! :)

Það verður verður ansi erfitt að toppa þetta.
Annars eru 9 dagar í flutningar og við erum á fullu að pakka niður og þrífa og skipuleggja, ótrúlega spennandi tímar framundan. Síðustu ca 2 ár hefur okkur leiðst alveg rosalega að búa í höfuðborginni og dreymt um að flytja, og loksins er það að gerast! :)


Mér langaði svo að deila með ykkur þetta hrikalega túnfisksalat sem ég var að gera mér. Ég er alltaf að reyna að borða hollt og þar að auki er ég rosalega magaveik og þoli illa t.d Majónes, þannig að ég ákvað að gefa þessu séns. Ég hef alltaf fussað yfir kotasælu en hún verður að engu í þessu og þetta er algjört dúndur!

"Hollt" túnfisksalat
1 lítil dolla kotasæla
1/2-1 dolla 5% sýrður rjómi (fer eftir því hvað það er sett mikið af gumsi í salatið) 
1 dós túnfiskur
2 egg
1/2-1 laukur eftir smekk
Smá gúrka og paprika, eftir smekk, má samt alveg sleppa
Aromat eða salt og pipar


Verði ykkur að góðu! :)

Monday, March 24, 2014

Er þunglyndi bara í hausnum á mér ?

Áðan las ég þessa grein sem gerði mig bara alveg rosalega reiða:

http://innblastur.is/read/2014/03/20/laekningin-vid-thunglyndi/?fb_action_ids=10203342171818122&fb_action_types=og.likes&fb_source=other_multiline&action_object_map=%5B492590677530498%5D&action_type_map=%5B%22og.likes%22%5D&action_ref_map=%5B%5DÍ þessari grein segir; 

"Þunglyndi er að mínu mati ótrúlega misskilið fyrirbæri. Af mörgum er þunglyndi talið vera sjúkdómur. Það er ekki rétt. Að minnsta kosti ekki í þeirri merkingu að þunglyndi sé eitthvað sem við fáum og ráðum ekki við, óheppin við. Þunglyndi er einvörðungu huglægt og kemur til af því að viðkomandi einstaklingi líki ekkert sérstaklega vel við sjálfan sig."

Ég hef lengi velt fyrir mér hvort ég eigi að opna mig um mína sjúkdóma, og eftir að hafa lesið þessa grein þá langar mig eiginlega bara að svara þessu.

Ég er þunglynd og með kvíðaröskun. 


Síðan áður en ég man eftir mér hef ég barist við þunglyndi. Vissulega hef ég lent í ýmsum erfiðleikum í lífinu, ég var lögð í einelti, já ég er hætt að láta eins og það hafi ekki gerst.. Ég var lögð í mikið einelti í grunnskóla og ég átti enga vini. Ég grét í fanginu á mömmu minni nánast alla daga og var vitanlega alveg rosalega þunglynd. En það var löngu komið upp á yfirborðið áður en ég lenti í neinu, áður en slæmar lífsreynslur höfðu mótað lífið mitt. Ég man ekki einu sinni hvenær ég byrjaði að taka þunglyndislyf. Ég hef örsjaldan náð að vera án þeirra og það hefur alltaf varið stutt. Þegar ég var ung var ég rosalega geðill, skapvond og erfitt að umgangast mig. Foreldrar mínir fóru með mig stanslaust til læknis, leitandi að svörum, og þá var ég svona rosalega þunglynd sem barn. Ég var ekki nema 12 ára gömul þegar ég var farin að íhuga að taka eigið líf.. Ég hefði sjálfsagt aldrei þorað að framkvæma það, en ég hugsaði mikið um það, hvort einhverjum (fyrir utan nánustu fjölskyldu) yrði sama hvort ég myndi bara drepa mig. Að vísu fékk ég þessar hugsanir staðfestar frá einum aðila í sms-i, sem sagði að heimurinn væri mikið betri án mín og að ég ætti bara að drepa mig.  


Þetta er ekki það sem mótaði þunglyndið mitt. Hver einasti dagur er barátta, og hefur alltaf verið í mínu lífi, alveg sama hvað er að gerast. Til dæmis er ég í dag nýgift og lífið ætti að vera dans á rósum en það er það ekki. Sumir dagar eru bara alveg rosalega erfiðir. Suma daga get ég ekki haldið inni tárunum, og græt úr mér augun, ekki útaf því ég hata sjálfa mig svo mikið, ekki út af því að lífið er svo erfitt, heldur er engin ástæða fyrir því. ÞAÐ er þunglyndi, oftar en ekki líður manni hræðilega en maður hefur enga hugmynd af hverju, sem í mínu tilfelli lætur mér líða enn verr því ég verð svo pirruð þegar ég græt út af engu.


Ég reyndi að hætta að taka lyfin mín fyrir stuttu síðan. Ég varð brjáluð í skapinu, réð ekkert við sjálfa mig, allt var ómögulegt, hvort sem það var ég, maðurinn minn eða jafnvel dýrin mín, svo grét ég úr mér augun, bara því ég þoldi ekki að Binni var að sjá mig í þessu ástandi.


,,Þunglyndi er að vera brotin/nn. Lækningin við þunglyndi, og já hún er svo sannarlega til, því um það er ég lifandi vitni, er sú að horfast í augu við sjálfan sig og sjá að þú ert ekki svo hræðilegur eftir allt saman. Það er að fara í gegnum það sem þú hefur upplifað um ævina og uppgötva að skilaboðin sem þú fékkst voru röng, að þú ert fullkomin/nn nákvæmlega eins og þú ert. Þú þarft ekki á neinu að halda til að vera það. Lækningin felst í því að taka eftir röddinni sem segir alla þessa ljótu, leiðinlegu hluti og skipta því sem hún segir út fyrir jákvæða hluti. Að velja að segja við sig: “Ég er fullkomin/nn, ég er frábær eins og ég er, ég elska þig eins og þú ert.” Lækningin er að horfast í augu við þig í speglinum og vita að þú ert nóg."


Ég er búin að hitta sálfræðinga og geðlækna allt mitt líf. Allir hafa gefið mér það verkefni að fara heim og horfa í spegilinn og hrósa sjálfri mér fyrir hitt og þetta. Jújú það gerir alveg gagn en nei það er ekki lækning.


Ég er ekki þunglynd af því að ég hata sjálfa mig. Ég er ekki þunglynd því ég var lögð í einelti. Ég er ekki þunglynd því ég hef lent í slæmum hlutum í lífinu.

Ég er þunglynd því ég fæddist svoleiðis. Ég er þunglynd og ég get ekkert að því gert. Það eina sem ég get gert er að taka lyfin mín og læra að lifa með þessum sjúkdómi. Svo er ótrúlegt hvað góð hreyfing gerir mikið fyrir þunglyndi, setur náttúrulega gleðiefnið í heilanum á okkur af stað og er besta lyfið við þessum leiðinlega sjúkdómi.

Mér finnst þetta stór orð sem þessi ágæta stelpa er að henda fram og ég held hún mætti bara sveimérþá skammast sín fyrir þau. Þetta er mögulega svarið við almennri vanlíðan, en þetta er ekki svarið við þunglyndi. Hver og einn tekst á við þunglyndi á sinn hátt, sumir ná tökum á því aðrir ekki. Ég er því miður ein af þeim sem þarf alltaf að berjast við þetta en ég er búin að sætta mig við það, og þar með er hálf barátta sigruð. Hinn helminginn af baráttunni mun ég alltaf berjast við. 


Það er svo mikilvægt að opna fyrir þessa umræðu, og mikilvægi þess að fá hjálp, ég vona að enginn sem er að upplifa þunglyndi, lesi þessa grein og haldi að þetta sé í hausnum á þeim og fari fyrir vikið ekki að fá hjálp. Þetta er alvöru sjúkdómur og hann er ekkert grín.
Tuesday, February 25, 2014

Nautnaseggur

Einusinni ætlaði ég að vera ofboðslega dugleg að borða öfgakennt hollt og setja endalausar uppskriftir og þetta átti að vera hollt blogg, EN við hjónin erum alltof miklir nautnaseggir til að geta borðað endalausar kjúklingabringur og boost.
Núna höfum við ákveðið að borða bara venjulegan mat, í hollari kantinum samt.
Við förum í ræktina flesta daga, eftir vinnu þannig að þá höfum við bara léttann mat.
Þessa 2-3 daga í viku sem ég fæ að elda góðann kvöldmat, langar mig líka að hafa eitthvað gott í matinn. Ætla að reyna að gera a.m.k einu sinni í viku að prufa eitthvað nýtt og það heppnast vel, þá mun ég setja inn uppskriftir hér og þar.


Í gærkvöldi skannaði ég yfir öll matarblogg og allar matreiðslubækurnar mínar í leit að einhverri gómsætri uppskrift, og ég fann uppskrift á www.ljufmeti.com sem mér leist vel á og ég ætla að deila henni með ykkur.


Gómsæt sweet chili kjúklingabakaBotn: 
5 dl hveiti
250 gr kalt smjör
1 tsk salt
3-4 msk kalt vatn

Fylling:
3 kjúklingabringur
5 dl sýrður rjómi (alveg 2 dósir)
1/2 - 1 paprika
Sveppir
2 Skarlottulaukar
1 dl sweet chili sósa
salt og pipar
2-3 msk maizena mjöl
mozarella ostur, rifinn

Aðferð:
Botn: Skerið smjörið í teninga og hrærið öllu saman með höndunum þangað til smjörið hefur blandast alveg saman við hveitið. Þrýstið deiginu í formið, bæði í botninn og kantana og setjið í ísskáp í smá stund, allavega á meðan fyllingin er elduð.
Fylling:
Kjúklingurinn er skorinn og steiktur. Laukurinn, paprikan og sveppirnir eru skorið smátt niður og bætt við kjúklinginn. Hrærið sýrðum rjóma og chili sósunni saman við og hitað að suðu. Látið sjóða við vægan hita í 10-15 mínútur og saltið eftir þörfum
Maizena er bætt við til að þykkja.

Setjið fyllingu í skelina og bakið við 200°c í 30 mín, takið út, setjið mozzarella ostinn yfir og setjið aftur inn í ofn 10 mínútur.

Ég skar líka niður kirsuberjatómata í sneiðar og lagði ofaná fyllinguna, sem mér fannst mjög gott. Það er líka gott að forbaka botninn í svona 10 mínútur áðuren fyllingin er sett í.

Klikkaði alveg á að taka mynd af minni böku, þannig að ég stal myndunum af ljufmeti.com
Hérna er upprunalega uppskriftin:
http://ljufmeti.com/2012/12/16/kjuklingabaka-med-sweet-chili/